2013

2012 búið og kemur víst aldrei aftur.
Frábært ár og líka það stærsta í mínu lífi.

jan - maí fór aðallega í það að safna bumbu og reyna að ljúka 2. árinu með stæl. Hvorutveggja tókst ágætlega.

maí og fyrri hluta júní safnaði ég meiri bumbu og fór nánast daglega í sund. Veðrið var dásemd mér fannst lífið nánast fullkomið!

22.júní fullkomnaðist það hinsvegar þegar litla daman mín mætti í heiminn. Allt hefur gengið eins og í lygasögu með hana, það hefur næstum allt gengið fullkomlega. (Þetta er samt það erfiðasta sem ég hef gert). Þetta er líka það besta. Alveg skilyrðislaus ást og þetta er sú tegund af ást sem ég held að geti hreinlega flutt fjöll :) Hún er að stækka og fullorðnast svo hratt að mér finnst ég varla mega blikka augunum án þess að missa af einhverju mikilvægu augnabliki. 

september - desember. Ji minn einasti. Fólk segir að það sé svo gott að eignast börn í námi því þá ráði maður tíma sínum sjálfur. Málið er bara að hjá mér þá fer bara allur tími sem ég hef í lærdóminn.. svona nánast. Þannig að þessi önn var heldur betur krefjandi. Baldvin í 50% vinnu og ég vildi auðvitað ekki missa af einni einustu stund með litlu dísinni minni. Þetta hafðist en seinasti eini og hálfu  mánuðurinn fyrir próf var horror. Svo skelfilegt reyndar að ég kvíði því alveg hrikalega að þurfa að fara aftur í skólann á mánudaginn nk. Ef ég ætti alla heimsins peninga þá myndi ég bara taka núna hellings tíma í að vera bara heima og knúsa litlu dósina mína. 

 

Það gerðist auðvitað allskonar annað skemmtilegt á árinu en þetta var svona það helsta.

 

Ég hef góða tilfinningu fyrir árinu sem nú er gengið í garð.

- Ég ætla auðvitað að halda áfram að reyna að vera hin fullkomna mamma (shoot for the stars right?)

-  Við Baldvin ætlum að vera ótrúlega dugleg í að borða hollt og hreyfa okkur og vera rosa fit, flott og ánægð með okkur í sumar

- Við ætlum nefninlega að gifta okkur :)
Trúlofuðum okkur árið 2010 og ætluðum alltaf að bíða með að gifta okkur þangað til við ættum pening. Sáum hinsvegar fljótlega að það yrði ekki fyrr en einhverntíma seint og um síðir þannig að við ákváðum bara að gera þetta ódýrt. Viljum líka frekar eyða peningunum okkar í einhver ævintýri og lífið sjálft heldur en einn dag. En dúddamía hvað það kostar mikið að halda eina petit veislu!! Það er svo fljótt að telja að maður á erfitt með að trúa því fyrr en maður fer að telja þetta saman.  Ég get samt heldur ekki hugsað mér að fara bara til sýsla og svo aftur heim. Þetta er jú eitthvað sem maður gerir bara einu sinni á ævinni og mig langar að gera þetta hinsegin þó það kosti örlítið meira. (Þó ég segi allsstaðar ég þá er það nú ekki svo að við séum að gera þetta allt eftir mínu höfði, við erum sem betur fer sammála í þessu flestu)

- Við ætlum líka í brúkaupsferð. Til NY. Gistum á frábæru hóteli á frábærum stað í (eflaust) frábærri borg. Ég kvíði reyndar örlítið fyrir þar sem litla skottan verður eftir heima :/ En ég hef enn nokkra mánuði til stefnu til að venjast tilhugsuninni.. (ekki einu sinni láta mig byrja að ræða um það þegar hún þarf að byrja á leikskóla.... ég get varla hugsað þá hugsun til enda)

- Svo ætla ég líka að útskrifast með BA gráðu í lögfræði. Ég ætla þó að fresta útskrift um nokkra mánuði frá upphaflega planinu. Hefði átt að útskrifast 22. júní (afmælisdagur Emilíu Emblu!) en ég ætla að skrifa ritgerðina bara í sumar og útskrifast í október. Þannig fæ ég að byrja í master næsta haust en get samt tekið þessa komandi önn aðeins léttar heldur en ella. Ritgerðin er nú ekki stór, 6 einingar, en það er samt hörkuvinna á bakvið hana og þar sem ég er enn alveg uppgefin eftir seinustu prófatörn ætla ég bara að leyfa mér að hlusta á sjálfa mig og gera þetta svona. Þó það þýði að sumarið verði kannksi ekki bara eintómur dans á rósum þá tel ég þetta vera bestu lausnina. 

- Ég vona líka að ég fái vinnu í sumar. Það er víst ekki hlaupið að því..

 

En jæja, læt þetta gott heita í bili.

Ætla að reyna að vera dugleg að skrifa! 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband